143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að spyrja eina ferðina enn. Ég veit vel að ríkisstjórnin og stjórnvöld semja ekki beint við kröfuhafa gömlu bankanna um uppgjör þeirra búa. Þetta veit ég vel, en það eru stjórnvöld sem settu gjaldeyrishöft á og gjaldeyrishöft voru hert, m.a. út af þessari stöðu. Ef búin eru gerð upp losnar hér um krónueignir í eigu erlendra aðila. Þá gæti sú staða einfaldlega komið upp að þær krónueignir verði fastar uppi í Seðlabanka vegna gjaldeyrishaftanna og þá er vandamálið svona: Eftir sem áður er hér risastór snjóhengja sem leitar út úr landinu og við verðum að hafa gjaldeyrishöft til að stoppa hana, en málið er að við viljum væntanlega ekki hafa gjaldeyrishöft endalaust, er það? Þessa stöðu sem er alltaf undirliggjandi er ekki hægt að leysa með störukeppni. (Forseti hringir.) Ég held að ekki sé hægt að leysa þessa stöðu með störukeppni og nú þarf hæstv. forsætisráðherra að segja okkur hvort hann hafi hugsað sér að fara í störukeppni (Forseti hringir.) og hvað hann sjái fyrir sér að sú keppni taki mörg ár eða áratugi eða hvort hann hafi einhverjar aðrar áætlanir.