143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við atkvæðagreiðsluna hér í sumar var eftir því kallað að orð skyldu standa. Kosningin var leynileg, rétt eins og núna, og einn þingmaður stjórnarflokkanna taldi það mikilvægt að orð stæðu. Það dugði til þess að það samkomulag sem var nefnt hér og var staðfest í ræðustól Alþingis stæði. Þingmenn standa frammi fyrir nákvæmlega sömu spurningu hér í dag.

Það hefði verið meiri bragur á því ef ríkisstjórnin hefði, að ég segi ekki hundskast til þess að vera með okkur í því að vera með sameiginlegan einn lista níu manna sem hefði það vægi að allir fengju aðkomu að stjórnarborðinu, við héldum friðinn um Ríkisútvarpið og greiddum öll atkvæði með þeim lista. Það hefði verið sómi að því og það hefði verið í takt við endurtekið boðaða sátt í sölum Alþingis sem hæstv. forsætisráðherra stendur fyrir því miður bara í ræðum.