143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í öðrum atkvæðaskýringum er hér um að ræða samning sem getur falið í sér mikil tækifæri í sambandi við viðskipti við Kína. Við höfum í fjóra áratugi átt í stjórnmálasamskiptum við Kína og viðskipti við Kína hafa aukist verulega á undanförnum árum. Þessi samningur auðveldar þau viðskipti, dregur úr tollum í sambandi við þau með það að markmiði að gera viðskiptin hagkvæmari fyrir báða aðila. Þessi samningur tekur ekki til fjárfestinga, tekur ekki til flutnings vinnuafls og er því þrengri en ýmsir aðrir samningar sem við höfum gert að þessu leyti. Réttarstaðan hvað vinnuafl og fjárfestingar varðar breytist ekki við lögfestingu þessa samnings.

Menn hafa réttilega vikið að stöðu mannréttindamála í Kína í þessum umræðum. Það var mat meiri hluta utanríkismálanefndar, eftir að hafa rætt þau mál vandlega, að aðstaða okkar til (Forseti hringir.) að koma sjónarmiðum á framfæri við kínversk stjórnvöld mundi fyrst og fremst batna með þessum samningi og þeim fylgisamningum sem honum fylgja, ekki versna. Möguleikar (Forseti hringir.) á að koma sjónarmiðum á framfæri á sviði mannréttindamála, vinnumarkaðsmála og annarra mála sem skipta máli í þessu sambandi aukast (Forseti hringir.) en minnka ekki. Það er mikilvægt að hafa það í huga.