143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þar sem breytingartillagan var felld verðum við að sitja hjá að þessu sinni. Þó vil ég árétta að 1. gr. frumvarpsins sem miðar að breytingu á 180. gr. almennra hegningarlaga er eitthvað sem við tökum heils hugar undir. Sömuleiðis vil ég árétta að það er ekki viðbót orðsins „kynvitund“ sem er vandamálið við breytinguna á 233. gr. a, heldur fyrst og fremst orðalagsbreytingin. Þar sem frumvarpið er ekki klárlega hlutlaust eða bót á tjáningarfrelsinu sjáum við okkur ekki fært að styðja það.

Ég vildi árétta sérstaklega að við hefðum stutt 1. greinina ef hún væri ein og sér. Í því sambandi langar mig að nefna, af því að það hefur komið fram að breytingartillaga okkar eigi kannski ekki heima í þessu tiltekna þingmáli, að 1. og 2. gr. eru eðlislega ólíkar, bæta báðar við kynvitund, en breytingin sem á við í 2. gr. frumvarpsins er ólík þeirri sem er í 1. gr. Það er gott og vel að okkar mati en þess vegna lögðum við fram breytingartillögu og sitjum hjá af þeim (Forseti hringir.) sökum.