143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

aðkoma ríkisins að kjarasamningum.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hækkanir nýtast ekki nema menn nái á sama tíma tökum á verðbólgunni. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt á það ofuráherslu að ná tökum á rekstri ríkissjóðs, ríkisfjármálunum, og ná að halda aftur af verðbólgu, skapa efnahagslegan stöðugleika sem hægt verði þá að byggja raunverulega kaupmáttaraukningu á. Ég vona að niðurstöður þeirra viðræðna sem nú eru í gangi muni fela þetta í sér, þ.e. að hér verði varðveittur stöðugleiki. Og takist það bendir allt til þess að okkur muni á næstu missirum og árum takast að auka kaupmátt á Íslandi verulega. Forsendurnar eru til staðar. Við sjáum hagvöxt fara af stað, framleiðslu og fjárfestingu vera að aukast, þannig að sú verðmætasköpun sem hefur vantað í landinu undanfarin ár til þess að bæta kjör fólks er loksins að taka við sér og mikilvægt að standa vörð um þá þróun áfram.