143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum rætt það og hefur alveg verið viðurkennt að sú málamiðlun sem gerð var vorið 2009 gekk lengra en við reiknuðum með að þyrfti til að ná samstarfi við Samfylkinguna í ríkisstjórn, við gerðum það … (Gripið fram í: … koma til baka?) Við höfum nefnilega öfugt við suma aðra alveg viðurkennt það, ég hef gert það opinberlega, skrifað um það kafla í bók. Samfylkingin sótti það mjög hart að umsókn yrði lögð inn og léði ekki máls á öðrum leiðum sem við nefndum, svo sem eins og möguleikanum á tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Niðurstaðan varð sú sem hún varð og hún var samþykkt af þeim stofnunum sem til þess eru bærar í okkar flokki, (ÁsmD: … leggja fram þingsályktunartillögu.) lýðræðislega tekin afstaða til þess.

Ef hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vill vera í þessum gír og rifja upp hvað menn sögðu fyrir alþingiskosningarnar 2009 er ég út af fyrir sig til í það. Var það ekki þannig að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði kjósendum að hann væri vinstri grænn, að hann væri vinstri maður og var kosinn út á það (Gripið fram í: Varst þú það ekki líka?) en hvar endaði hann? (ÁsmD: Þú varst líka kosinn út á það að vera ESB-andstæðingur.)