143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að hv. þingmaður væri sleipari í andsvörum en svo að hann þyrfti að ráðast að einstaklingnum sem hér stendur og saka hann um að vera fáfróðan. Ég hef haft meira álit á hv. þingmanni hingað til en það en gott og vel, ef menn eru rökþrota fara þeir í þetta. Ég hef hins vegar lesið þessa skýrslu og ég hef lesið hana í heild sinni, ég einblíni ekki á einhverja eina setningu eins og hv. þingmaður gerir.

Miðað við skýrsluna og meginniðurstöðu skýrslunnar er hér með orðið skjalfest að við stóðum í aðlögunarviðræðum. Það er mín skoðun, mín upplifun af lestri skýrslunnar. Það er sama í hvaða hártogunarleik hv. þingmaður fer, þetta er einfaldlega svona. Allir þeir sem lesa skýrsluna geta komist að sömu niðurstöðu.

Varðandi makrílinn man ég ekki betur en hv. þingmaður hafi sagt það í þessum stól meðan hann bar ábyrgð á málinu að makríllinn truflaði ekki viðræður Íslands við Evrópusambandið.