143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sat hér í salnum, eins og ég hef setið undir hverri einustu ræðu sem tengist þessari umræðu, og hlustaði á hæstv. utanríkisráðherra. Ég kom ekki hingað til þess að skaka að honum skellum. Ég vil ekki segja að ég hafi skammast mín fyrir það sem hann sagði en mér fannst hann fara ákaflega óvarlegum orðum um það sem eru viðsemjendur okkar um Evrópusambandið. Ég get ekki annað sagt en að ég brýni fyrir honum, og það hef ég lært af ákaflega langri reynslu, að stundum er betra að hugsa áður en menn tala.