143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg magnað hvað hæstv. ráðherrum í þessari ríkisstjórn finnst þeir oft vera misskildir eða menn ekki spyrja þá réttu spurninganna. Ræða hæstv. ráðherra í gær var einfaldlega um margt mjög eftirtektarverð. Evrópusambandið er ekkert annað en öll þau ríki sem það mynda og hæstv. ráðherra beinir þá orðum sínum til þeirra þegar hann kallar þau úlf í sauðargæru og beitir öðru því orðfæri sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir hér áðan. Það er ekki hægt að hlaupast undan því, það er enginn misskilningur í þessu. Þetta var sagt, það var gefið í skyn að vegna einhvers sem Evrópusambandið hefði ýmist gert eða ekki gert mætti rekja þær deilur sem þar í landi eru. Þetta var bara sagt og það er enginn misskilningur í þessu.

Af hverju sagði hann þetta þá í umræðum um Evrópusambandið? Hver var tilgangurinn? Menn nota deilurnar þar í umræðum um skýrslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið í einhverjum tilgangi. Hver var þá tilgangurinn? Kannski hæstv. ráðherra ætti að fara yfir það hér. Í samhenginu sem þetta er rætt með þessum hætti er alveg ljóst hvað hæstv. ráðherra átti við. Það erum ekki bara við á Íslandi sem erum að misskilja eitthvað, ég held að hver sem les þetta á hvaða tungumáli sem er skilji nákvæmlega hvað hæstv. ráðherra gekk til.

Ég kom hér upp vegna þess að mig langaði að koma aðeins inn í umræðuna um undanþágur, varanlegar lausnir, ekki varanlegar lausnir eða sérlausnir. Það hefur verið rætt um þetta mjög lengi og það er ekkert nýtt af nálinni í því að við vitum öll að við fáum ekki einhverjar varanlegar undanþágur frá reglum Evrópusambandsins. Það er ekki það sem menn hafa verið að sækja um heldur höfum við undirbúið frá árinu 1999, sérstaklega ef við fókuserum á fiskveiðistjórnarkerfið, með hvaða hætti við Íslendingar getum farið inn í aðildarviðræður við Evrópusambandið með það að markmiði að ná fram sérlausn sem kölluð er svokallað sérstakt stjórnsýslusvæði sem væri íslenska efnahagslögsagan.

Árið 1999 kom John Madison, sem þá var sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi, fram með sambærilega hugmynd sem síðan var unnið með innan utanríkisþjónustunnar og Halldór Ásgrímsson fór mjög vandlega og vel yfir í ræðu í Berlín í maí árið 2002. Það er ekki hægt að segja að menn hafi ekki verið undirbúnir þegar farið var inn í aðildarviðræðurnar hvað varðar þetta stærsta hagsmunamál okkar. Við vorum mjög vel undirbúin. Og hver varðaði veginn? Það var fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sem gerði það mjög vel og að undirlagi sem kom innan úr Evrópusambandinu sjálfu á árinu 1999.

Þarna var því ekkert nýtt undir sólinni og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir á ekkert með að halda því hér fram að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki verið vel undirbúin þegar kom að þessum stóru atriðum. Þetta var undirbúið á vakt ríkisstjórna sem voru hér löngu áður en Samfylkingin kom nokkuð nálægt málinu. Það var gert vel, þetta var góður undirbúningur, vel ígrundaður.

Þegar þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, fór yfir þessa hugmynd í ræðu í Berlín árið 2002 tók Joschka Fischer til dæmis undir það að þetta væri gerlegt fyrir Ísland. Og á hverju byggði og byggir þessi tillaga og hvers vegna telja menn sig geta lagt slíka tillögu fram? Það er vegna þess að á Íslandi flokkast sjávarútvegur undir grundvallarhagsmuni þjóðar.

Hér hafa menn haldið því fram að það hafi verið leitt til lykta í samningunum sem Noregur gerði við Evrópusambandið og voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994, ef ég man rétt. Það er rangt vegna þess að það er ekki hægt að bera saman hagsmuni Noregs og Íslands í sjávarútvegi. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það vegna þess að árið 1990 voru útflutningstekjur Noregs af fiskafurðum um 6% af gjaldeyristekjum, á Íslandi voru það á sama tíma tæplega 70%. Núna eru gjaldeyristekjur Norðmanna af útflutningi í sjávarútvegi 5,4% en eitthvað undir 40% á Íslandi. Þetta er bara ólík grundvallarafkoma og í grundvallaratriðum ólíkar forsendur.

Norðmenn geta aldrei leitt til lykta málefni sjávarútvegsins fyrir Íslendinga þar sem grundvallarhagsmunir þjóðarinnar eru í húfi, ekki bara svæðisbundnir hagsmunir ákveðinna strandsvæða. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir las það upp áðan að þannig var tekið á málinu í aðildarviðræðum Noregs og Evrópusambandsins á sínum tíma þannig að það má ekki bera það saman.

Þess vegna nefni ég það að í fyrsta lagi telja menn að þeir geti farið þessa leið, og það var rökstutt ágætlega af Halldóri Ásgrímssyni á sínum tíma, vegna þeirrar staðreyndar að þarna er um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar að ræða. Í öðru lagi vegna þess að efnahagslögsaga Íslands liggur ekki að efnahagslögsögu Evrópusambandsins og þar af leiðandi er ekkert sem segir að við verðum sjálfkrafa hluti af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, þ.e. sem snýr aðallega að því að menn eru með efnahagslögsögu sem liggur annars staðar.

Í þriðja lagi verður að nefna í þessu sambandi að menn töldu að ekki þyrfti að sækja um neinar varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni út af því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér ágætlega áðan, þ.e. reglum Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika þar sem enginn þar er með veiðireynslu í íslensku efnahagslögsögunni. (Gripið fram í.)Fjölmargir eru hér á mælendaskrá en ég geri ráð fyrir því að ég fái að tala minn stutta tíma. Hv. þm. Birgir Ármannsson er á eftir mér og getur þá sagt allt það sem hann lystir.

Virðulegi forseti. Það var byggt á öllu þessu sem ég hef hér nefnt og líka mörgu öðru sem menn töldu 2002 að væri hægt að gera. Og það var rakið allt til ársins 1999 þegar John Madison lagði grunninn að þessari hugmynd.

Alls kyns sérlausnir hafa verið sniðnar í öllum aðildarviðræðunum fyrir þær þjóðir sem inn hafa farið. Hvers vegna? Vegna þess að þetta er ríkjabandalag og hvert ríki fyrir sig hefur sína sérstöðu og það á ólíkum sviðum. Þess vegna fannst mér mjög þunnt slegið þegar hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan að við gætum ekki borið saman sérlausnir fyrir sterkan sjávarútveg á Íslandi og sérlausnir vegna heimskautalandbúnaðarins á norðurslóðum. Auðvitað getum við það vegna þess að þetta snýst um aðferðafræðina og fordæmið hvað það varðar að það sé hægt að fá sérlausnir yfir höfuð, ekki hvort þær séu innbyrðis líkar eða ólíkar. Þessi umræða snýst ekkert um það.

Ég held að við eigum að hætta að deila um það hvort hægt sé að fá sérlausnir eða ekki. Ef menn hafa einhvern áhuga á að klára þetta mál ættum við frekar að ræða það hvort sérlausnin verði nógu góð fyrir Ísland eða ekki. Um það eigum við að ræða og innihald hennar en hætta þessu stagli um að ekki sé hægt að fá neinar sérlausnir. Það er hægt, við erum með mýmörg dæmi um það.

Þessa dagana, og greinilega núna, eru fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins mér greinilega ofarlega í huga vegna þess að í mjög góðum pistli á vefsíðunni Pressan skrifar nú annar fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, mjög fína samantekt um einmitt þetta þar sem hann listar upp hverja sérlausnina á fætur annarri og bendir á að þetta sé gerlegt. Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvaða og hvernig sérlausn við fáum.

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum núna að fara að eiga samtal um þetta á þeim grunni að við séum þá annaðhvort að ræða málið út frá einhverjum staðreyndum sem við höfum í hendi eða ekki. Hvernig eigum við að ræða þetta mál? Eigum við að halda áfram, ég og segjum hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, að takast á um það í þessum stóli hvað mögulega gæti falist í sérlausn fyrir Ísland? Ég hef engar forsendur til þess. Ég veit bara hvað ég mundi vilja sjá og hvað ég tel skynsamlegt að leggja áherslu á, en ég veit ekki hvað kemur út úr því, ekki frekar en hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Ég hef ekki hugmynd um það vegna þess að við vorum ekki lögð af stað til að klára þann hluta málsins, því miður. (Gripið fram í.) Það var farið ágætlega yfir það hér áðan.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að klára þetta. Við eigum að sjá hvað kemur út úr þeim köflum sem ekki var búið að fara í gegnum. Ég vil það og ég veit að stór hluti þjóðarinnar vill það líka. Stór hluti þjóðarinnar vill það hins vegar ekki en þá er spurning hvernig ábyrg ríkisstjórn hegðar sér. Ætlar hún að vera í annarri skotgröfinni eða ætlar hún með einhverjum hætti að leiða málið til lykta? Það gerir hún ekki með þeim málflutningi sem var hér í gær, alls ekki. Og það er ekki hægt að segja eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson gerði í ræðustól áðan þegar hann barði sér á brjóst og sagði að flokkar sem væru andsnúnir aðild að Evrópusambandinu hefðu unnið stórsigur í vor. Þá langar mig að benda þeim flokkum sem nú eru í ríkisstjórn á að þeir fengu bara 51%. Það þarf að tala við hin 49% líka af því að annars verða þessar deilur uppi áfram og endalaust.

Hver ræddi um samstöðustjórnmál og samtalsstjórnmál í áramótaávarpi? Var það ekki hæstv. forsætisráðherra? Hvernig væri að hann væri þá maður að meiri og gerði eitthvað í líkingu við það sem hann sagðist ætla að gera og reyndi þar með að leiða málið til lykta óháð því hvað honum finnst? Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að reyna að klára mál sem hefur klofið þjóðina í herðar niður allt of lengi. Þannig stjórnmálamenn sem ná að leiða slík mál til lykta óháð sinni eigin skoðun eru alvörumenn.

Ég ætla að nefna í lok minnar ræðu — tíminn flýgur — að ég hef verulegar áhyggjur af þeirri orðræðu sem á sér stað hér um Evrópusambandið. Menn reyna að teikna það upp sem einhvers konar skrímsli og eru mjög ósvífnir í þeirri umfjöllun. Hæstv. ráðherra gekk að mínu mati allt of langt í gær í umræðunni hér. Þegar hann segir að þetta séu úlfar í sauðargæru er hann að tala til Danmerkur, Finnlands, Þýskalands, Hollands og um alla Evrópu af því að Evrópusambandið, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, er ekkert annað en löndin sem í því eru. Þá er ekki hægt að segja, eins og hann gerði áðan, að hann sé ekki að meina beint til þessara ríkja, hann sé að tala um Evrópusambandið. Ef Evrópusambandið er svona vont er það vegna þess að þessi ríki sem eru í Evrópusambandinu og búa Evrópusambandið til eru svona vond. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur.

Þó að menn séu andsnúnir aðildarviðræðum og aðild að Evrópusambandinu eiga þeir samt, ef þeir eru að tala fyrir hönd þjóðarinnar, Íslands, að gjöra svo vel að tala af virðingu um það sem menn eru að gera, þó að þeir séu ósammála þeim, og fara þá frekar í efnislegan debatt við þessa aðila um einhver mál en ekki með svona upphrópunum eins og áttu sér stað í gær. Það er vandræðalegt, ekkert annað. Ég hef áhyggjur af því að þetta geti kostað okkur töluverða fjármuni, geti valdið okkur fjárhagslegu tjóni. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að á hverjum einasta degi er einhver aðili á Íslandi að leita eftir einhvers konar fyrirgreiðslu frá Evrópusambandinu í gegnum styrkjakerfi og alls kyns prógrömm sem við erum aðilar að. Ekki gleyma því að við erum aðilar að EES-samningnum, við erum aðilar að alls kyns verkefnum innan Evrópusambandsins.

Við höfum dæmi um það, t.d. frá árinu 2003, að þá réðist þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, á Gerhard Sabathil sem var sendiherra gagnvart Íslandi og kallaði Evrópusambandið ólýðræðislegasta bákn sem maðurinn hefði fundið upp. Þar var allt innifalið, Kórea, Norður-Kórea, nefnið það. Og hvað gerðist? Það muna allir. Það fór allt í frost vegna þess að orðum fylgir ábyrgð. Menn skulu fara varlega þegar þeir fara í debatt hér innan lands. Það getur vel verið að þetta falli í frábæran jarðveg í Skagafirðinum en menn eru að tala fyrir hönd þjóðarinnar.

Ég vil halda því samstarfi áfram sem við höfum átt við stofnanir Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn eða aðra samninga sem við höfum gert við það. Og ég veit að ótrúlegustu aðilar hér í landi vilja það líka þó að það sé (Forseti hringir.) ekki á þessari ríkisstjórn að heyra (Forseti hringir.) að hún hafi neinn sérstakan áhuga á því.