143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki viss um að ég skilji spurninguna fyllilega, ég skildi hana ekki alveg, en við fáum kannski betra tækifæri í seinna svarinu.

Mig langar að draga það aðeins fram hvernig þessi vinna var unnin. Það hefur komið fram í umræðunni að skýrslan gefur nokkuð jákvætt vottorð um það hvernig ferlið var þrátt fyrir allt. Skipaðir voru vinnuhópar og reynt að draga öll ólík sjónarmið fram í hverjum hópi þar sem samningsmarkmiðin voru skilgreind.

Það var líka farið í þessa vinnu, eins og ég var að segja áðan, menn fóru yfir og spegluðu lagaumhverfið, skoðuðu nákvæmlega hvernig við stöndum miðað við innleiðingu á einstökum þáttum. Menn flögguðu í byrjun ef einhver ákveðin atriði voru fyrir fram mörkuð.

Það veit hv. þingmaður jafn vel og ég að öll þessi mál fóru síðan fyrir utanríkismálanefnd, voru rædd þar og kynnt þar og jafnvel meira en í ríkisstjórninni ef út í það er farið. Hvert einasta skref, hvert einasta þrep var kynnt. Formenn þessara vinnuhópa voru ekki stjórnarsinnar eða vildarvinir ríkisstjórnarinnar, þeir voru fengnir héðan og þaðan úr samfélaginu með mikla og víðtæka reynslu.

Allur fyrsti kaflinn í skýrslunni er einmitt um þetta, um stöðuna sem þar er, og það er mjög athyglisvert að megnið af niðurstöðunum úr skýrslu Hagfræðistofnunar er byggt á upplýsingum úr skýrslu fyrrverandi utanríkisráðherra, það er sagt frá því hvernig hann skilaði málinu fyrir rúmu ári. Þar kemur þetta allt fram.

Bara til að fá það skýrar um hvað spurningin var þá kemur mjög skýrt fram þar hverju var flaggað, hvað var opnað, hvaða samningsmarkmið voru sett, hverju var lokað til bráðabirgða og hverju var frestað. Ég get í sjálfu sér engu bætt við það, en ekkert af þessum málum fór áfram nema tveir aðilar samþykktu það, ríkisstjórnin og utanríkismálanefnd.