143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ræðuna. Ég held að hún undirstriki hversu mikilvægt er að við fáum fólk inn til að fjalla um þessi mál, fólk sem hefur góða þekkingu, hefur skoðun, hefur farið yfir málin og unnið í þeim. Ég held að það sé nákvæmlega það sem þarf, bæði til að upplýsa okkur hin sem höfum ekki alveg sömu innsýn og eins til að leiða umræðuna í þann farveg að hún verði málefnaleg og geti leitt til einhverrar niðurstöðu.

Við hv. þingmaður deilum því að við berum byggðamálin mjög fyrir brjósti og teljum þá þróun sem hefur orðið á landsbyggðinni mjög neikvæða, svo ég leggi orð í munn hv. þingmanns. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að skoða kaflann um landbúnað og dreifbýlisþróun. Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á þeim kafla í skýrslunni.

Það kom réttilega fram að vinnan sem var kannski gerð að einhverjum hluta af vanefnum var að bera saman lagaumhverfið á báðum stöðum. Það er náttúrlega hluti af því sem sumir kalla aðlögunarferli og aðrir undirbúningsferli. Síðan er að fara í að skoða stofnanakerfið áður en samningur er gerður. Það felur ekki í sér að menn þurfi að aðlaga stofnanakerfi áður. Það kemur fram í skýrslunni að Íslendingar fengu undanþágu frá því að þurfa að byrja þá aðlögun eða að breyta stofnanakerfinu. Eingöngu átti að sýna fram á hvernig það væri hægt að gera, en síðan yrði það ekki gert fyrr en eftir að búið væri að afgreiða aðildarumsóknina.

Mig langar líka að heyra skoðun hv. þingmanns á því sem skrifað er í samantektarkaflanum, að hvað varðar landbúnaðarkaflann hafi málum verið öðruvísi farið. Þá var verið að bera það saman við sjávarútveginn. Ísland hefur lagt fram aðgerðaáætlun um undirbúning og afhent hana Evrópusambandinu. Evrópusambandið hafði samþykkt áætlunina fyrir sitt leyti og bauð Íslendingum að leggja fram samningsaðstöðu í landbúnaðarmálum. Í miðri skýrslunni segir skýrsluhöfundur, sem er sá sami og hv. þingmaður benti á að hefði unnið skýrslu fyrir Bændasamtökin, að í rauninni stæði ekkert í veginum fyrir því að menn gætu náð samstöðu um landbúnaðinn. Mig langar að heyra komment á þetta.