143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:05]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum farnir að hljóma eins og ástfangið par sem ekki hefur hist lengi. Ég get tekið undir margt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði og má vel vera að ég beiti fyrir mér fyrir því að málið fari í nefnd. Það á auðvitað eftir að ræða þetta allt saman og ég hef allan fyrirvara á því. Ég er hins vegar ekki eins sannfærður og hv. þm. Össur Skarphéðinsson um að það séu til sérlausnir og hef á tilfinningunni að svo sé nú ekki, en ég ætla nú ekkert að ákveða neitt fyrir fram í því.

Það eina sem ég horfi á í þessari umræðu er sá veruleiki að margir munu krefjast þessa þótt ég sé ekki sammála þeim. Það sem ég er einfaldlega að segja er: Get ég bara hunsað fólk sem ekki er sammála mér af því að ég kann hugsanlega að vera í meiri hluta? Það er „dílemma“ mín. Ég segi: Ef hægt er að fara einhverja aðra leið, ef við getum fundið einhverja aðra leið en að slá fólk í rot sem er ósammála þá er ég tilbúin að leita hennar. Það er eiginlega inngangurinn og aðalatriðið í ræðu minni. Annað ætla ég raunverulega ekki að segja.