143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan í seinni ræðu sinni að það ætti ekki að koma á óvart að stjórnarflokkarnir settu þetta mál á dagskrá. Að vísu er það forseti sem setur málið á dagskrá en ekki einstakir flokkar og hann hefur þegar ákveðið að taka það af dagskrá þessa fundar í dag, en látum það liggja á milli hluta. Það kemur hins vegar á óvart, jú, að stjórnarflokkarnir skuli þrýsta á um það að málið sé sett á dagskrá með þessum hætti vegna þess sem áður hafði verið sagt um að hér ætti að koma fram skýrsla, þetta var margsagt hér í haust þegar við höfum rætt þessi mál, það ætti að koma skýrsla, hana ætti að taka til umræðu, kynna fyrir þingi og þjóð og í framhaldinu taka ákvörðun um málið.

Þess vegna kemur hraði þessarar tillögu á óvart. Það er bersýnilegt að ákvörðun stjórnarflokkanna hefur legið fyrir í nokkurn tíma, þessi tillaga ber það með sér, jafnvel áður en skýrslan var kynnt. Ég verð að segja það við fulltrúa stjórnarflokkanna: Ég tel að stjórnarflokkarnir séu ekki að gera sér og heldur ekki þeim málatilbúnaði sem þeir vilja hafa í frammi í þessu máli nokkurn greiða með þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð.