143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég efast ekki um góðan vilja þess forseta sem er á forsetastóli til að reyna að hafa skikk á hlutunum, en einhvern veginn hefur vikan ekki byrjað nákvæmlega eins og maður óskaði sér að góð vika byrjaði á Alþingi. Það vill svo til að ég er hér með gagnmerkt rit, ritið Háttvirtur þingmaður – handbók um þingstörfin. Því er gjarnan gaukað að nýkjörnum þingmönnum þeim til fróðleiks. Þar er mjög fallega fjallað til dæmis um samstarfið í forsætisnefnd og við formenn þingflokka. Þar segir um forsætisnefnd að verkefni hennar séu þessi:

a. Að skipuleggja þinghaldið með því að gera starfsáætlun fyrir þingið, svo og vikulegar áætlanir um þingstörfin.

Ekki var sú tillaga sem kom hér á dagskrá í dag afrakstur slíks samstarfs um dagskrá þessarar þingviku.

Varðandi þingflokksformenn segir:

Forseta ber samkvæmt þingsköpum að hafa samráð við formenn þingflokka um skipulag þingstarfa og fyrirkomulag umræðna.

Þetta er það sem er verið að kynna þegar verið er að gefa góða mynd af þinginu, (Forseti hringir.) ekki satt, forseti, gefið út í fallegum handbókum? Á ekki að reyna að fara aðeins eftir þessu?

(Forseti (KLM): Forseti hvetur alla til að lesa útgefið efni sem sett er fram í svo góðum bókum.)