143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er mikilvægt að ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu og hæstv. utanríkisráðherra er hér og fylgist með umræðunni og tekur þátt í henni eftir því sem hann telur ástæðu til, eins og hefur verið vitnað til í þessum ræðustól. Ég verð að segja að mér finnst eftirsóknarvert, eins og öðrum hv. þingmönnum, að hæstv. fjármálaráðherra sé viðstaddur umræðuna. Það er bæði vegna þess, eins og hér hefur verið bent á, að hluti af þeirri skýrslu sem er til umræðu varðar efnahagsmál, gjaldmiðilsmál og þau eru auðvitað á verksviði hæstv. fjármálaráðherra en líka vegna þess að hann er formaður annars stjórnarflokksins.

Ég minnist þess að í umræðunni um Evrópusambandsmál á síðasta kjörtímabili var oftlega kallað eftir því að þáverandi hæstv. fjármálaráðherra sem einnig var þá formaður annars stjórnarflokksins væri viðstaddur umræðu og svaraði fyrir sinn flokk og hann varð yfirleitt við því. Ég held að það væri þá líkt á með þeim komið ef hæstv. fjármálaráðherra sæi sér fært að koma hingað í þinghús og vera viðstaddur umræðuna. Ég held að það gæti verið upplýsandi að mörgu leyti.

(Forseti (ÞorS): Forseti ítrekar að skilaboð hafa verið send hæstv. fjármálaráðherra um að koma til fundarins.)