143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru nokkur atriði sem maður veltir fyrir sér í þessari umræðu almennt og þó er kannski eitt sem lítið hefur verið fjallað um og það er pólitíska umræðan hér innan lands. Það er svolítið óvenjulegt þegar maður horfir til umræðunnar akkúrat núna þegar þingflokkar stjórnarflokkanna koma svona bratt inn með þessa tillögu, beint inn í skýrsluna og það er svona mikill þungi beggja stjórnarflokkanna með málinu. Þá óttast maður þann veruleika sem fylgir í framhaldinu, þ.e. þann að mjög mikill ágreiningur er um þetta mál í herbúðum allra flokka. Það er mjög breiður prófíll í öllum flokkum um þetta mál. Ég hef áhyggjur af því út af lýðræðinu og lýðræðislegri umræðu ef menn fauta í gegn heildarásýnd stjórnarflokkanna, ef svo má segja, í þessu máli og hafa ekki leitt þennan ágreining til lykta í sínu baklandi. Látum vera ágreininginn við okkur hin sem getum verið annarrar skoðunar o.s.frv., en það er svona í öllum flokkum, það eru ýmis sjónarmið og sjónarhorn í öllum stjórnmálaflokkum.

Að þessu leytinu til hef ég áhyggjur af næstu skrefum vegna þess að það er mikilvægt fyrir svona mál að breið nálgun sé á það, ekki bara fyrir stjórnmálahefðina og stjórnmálaumræðuna heldur líka fyrir framhaldið. Við erum svo sem ekki að ræða tillöguna sem slíka hér en greinargerðin með tillögunni lítilsvirðir í raun og veru alla þá sem studdu umsóknina á sínum tíma óháð því hverjar röksemdirnar voru á hverjum tíma. Ég mundi vilja biðja hv. þingmann, vegna þess að hún hefur fjallað hér oft um (Forseti hringir.) vinnubrögðin í þinginu og hvernig þau koma henni fyrir sjónir, að segja mér hvernig þetta birtist henni.