143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þann 20. febrúar var dreift hér tillögu til þingsályktunar frá fjórum þingmönnum Framsóknarflokksins sem allir eru í Reykjavíkurkjördæmum. Það vekur reyndar athygli, og kom mér á óvart, að þetta mál er á dagskrá þegar í dag, en ég geri ráð fyrir að það sé út af því að engin mál eru frá ríkisstjórninni nema þessi óheppilega þingsályktunartillaga sem á að taka af dagskrá af því að hún er ekki þingleg. En látum það vera.

Áðurnefnd tillaga til þingsályktunar er um að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að vinna að því að Sundabraut verði að nýju tekin inn í samgönguáætlun við næstu endurskoðun hennar.

Nú er Sundabraut á aðalskipulagi og svæðisskipulagi og sannarlega hef ég ekkert á móti Sundabraut. Sundabraut var hins vegar tekin út úr samgönguáætlun af því að við eigum ekki nóg af peningum, okkur vantar peninga. Nú hefur Framsóknarflokkurinn ekki verið mjög hrifinn, virðist vera, eða tekið mikið undir það að reisa þurfi nýtt sjúkrahús eða endurnýja það, gera það upp, gera það þannig úr garði að við getum notað þar nýjustu tæki og sinnt sjúklingum og rekið heilbrigðiskerfið eins og vera ber. (Gripið fram í: Heldur betur.)

Þess vegna langar mig til að spyrja: Hver er forgangsröðin hjá þingmönnum Framsóknarflokksins? Eru það heilbrigðismálin eða Sundabraut?

Ég held ég þurfi ekki að hafa þetta lengra og segi máli mínu lokið, virðulegi forseti.