143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við endurskoðun laga um Seðlabankann árið 2009 var ég ein þeirra sem ræddu að ganga hefði mátt lengra í breytingum á þeim lögum. Við hefðum þurft að taka fyrir bæði lögin sjálf og markmið Seðlabankans í heild sinni. Þess vegna tel ég þarft að endurskoða lögin um Seðlabankann og þá öll lögin, ekki eingöngu það sem snýr að stjórnendum bankans eða hæfiskröfum þar að lútandi.

Ég vil að það komi fram hér, virðulegur forseti, að ég tel að gera eigi hæfiskröfur til þess embættis eins og allra annarra embætta af þessum toga. Menn settu það hér inn sem hæfiskröfu að þar þyrfti að vera hagfræðingur. Ég get fallist á það en ég tel líka að skoða megi hvort þar eigi að standa og megi standa „einstaklingur með sambærilega menntun“, því að hagfræðin ein og sér þarf kannski ekki að vera alfa og omega í hæfni þess sem gegnir seðlabankastjórastöðu.

Virðulegur forseti. Ég vil líka að það komi fram að ég hef alla tíð verið andvíg því að pólitískir fulltrúar verði settir inn í Seðlabankann eins og tíðkaðist um áratugaskeið, svo að það sé sagt.

Ég tek undir það með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra — þegar hann ræðir um fjármálastöðugleika, samskipti seðlabanka og ríkisstjórnar eða ríkissjóðs, eða hvernig við orðum það — að til að koma á þeim fjármálastöðugleika sem þarf að vera í landinu þurfum við ef til vill meira samtal á milli ríkisstjórnar og seðlabanka. Það á ekki að rýra grundvallaratriði, sem er sjálfstæði Seðlabanka Íslands, án pólitískra inngripa.