143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra á að hafa heyrt af því eftir orð forseta hér áðan að forseta bárust erindi í morgun sem fjölluðu einmitt um það atriði sem hæstv. ráðherra segist hafa heyrt hér af í einhverju andsvari.

Virðulegi forseti. Þetta er sko snautlegasta uppákoma sem ég hef orðið vitni að í ræðustól. Við erum búin að vera ræða hér stórmál í allan dag og hæstv. ráðherra segir bara: Ja, ef þetta er svona mikið mál fyrir ykkur sem ég heyrði af í einhverju andsvari áðan þá get ég svo sem alveg kippt þessum orðum út.

Hæstv. ráðherra leggur fyrir þingið greinargerð með áburði, óhróðri og ósannindum um fólk sem setið hefur á Alþingi og situr enn á Alþingi. Hann þarf að biðjast afsökunar á því. Svo gefur hann í úr sæti sínu. Hann hefur ekki setið í sæti sínu í allan dag, hann ætlaði að þegja málið af sér í hliðarsal en (Forseti hringir.) sest svo í sæti sitt til þess að hrópa að þingmönnum í ræðustól að þeir ljúgi. (Forseti hringir.) Hvers lags eiginlega er þetta, virðulegi forseti? Ég fer fram á það að hæstv. ráðherra verði víttur fyrir þessa framkomu og að hann komi síðan í þennan ræðustól og biðji þingheim afsökunar og líka fráfarandi þing sem situr undir ávirðingum hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra í greinargerð með umræddri tillögu.