143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eins og hefur komið fram höfum við ekki mikinn tíma til stefnu til að bregðast við tillögu hæstv. utanríkisráðherra um að slíta aðildarviðræðum án aðkomu þjóðarinnar. Við höfum bara fram á föstudag og því er mjög brýnt að tillagan um þjóðaratkvæðagreiðslu fari í umræðu og við fáum að vita vilja Alþingis til þess að heimila þjóðinni að taka ákvörðun um áframhald aðildarviðræðna eða ekki.

Það er vert að hafa það í huga að nú á aðeins þremur dögum hafa um 13% kosningarbærra manna undirritað áskorun um að fá að gera þetta. Ég skora því á þingmenn, hvort sem þeir eru hlynntir því að slíta viðræðum eða ekki, hlynntir ESB eða ekki, að styðja þessa tillögu því að það er kallað eftir þessu. Þetta var kosningaloforð beggja ríkisstjórnarflokkanna. (Gripið fram í.) Það kom fram í bréfi til kjósenda Framsóknarflokksins sem birtist á RÚV í dag.