143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Árið 2009 fyrir kosningar sagði Sjálfstæðisflokkurinn í kosningaefni sínu: Ábyrg leið að upptöku evru. Árið 2013 segir Sjálfstæðisflokkurinn í sínu kosningaefni, kynningarefni sem segir fyrir um það hvað hann ætli að gera á næsta kjörtímabili, að hann ætli að vera með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu. Hláturinn sem varð hér áðan þegar ég rifjaði þetta upp af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins staðfestir að kosningaútgáfa Sjálfstæðisflokksins er ekki meira virði en skeinipappír. Það hefur verið staðfest hér. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi vil ég líka nefna að hláturinn hér áðan segir mér líka að hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er alveg sama þótt það opinberist hér að orð formanns þeirra séu algerlega ómarktæk þar sem hann hamraði á þessu sama í aðdraganda kosninga. Þá vitum við að (Forseti hringir.) þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru stoltir af þessu. Þá er það komið fram.