143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[16:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Rosalega þætti mér vænt um það, kæru þingfélagar, ef þið munduð leyfa okkur að koma þessu máli á undan hinum málunum þannig að við getum fengið efnislega umræðu um hvort ekki sé betra að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál áður en aðildarviðræðum verður rift.

Við erum því miður enn og aftur á þeim stað að það er alveg sama hvaða rök ég hef fram að færa og hversu vel máli farin ég er, ég get ekki snúið huga meiri hlutans, ekki frekar en mér tókst að snúa huga meiri hlutans á síðasta kjörtímabili um mjög sambærileg mál. Það hryggir mig.