143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dagskrártillaga.

[16:20]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég segi nei vegna þess að mér finnst það lágmarkskurteisi við sveitarstjórnarstigið að það fái að hafa sínar kosningar í vor. Mér finnst það hroki af alþingismönnum og grátlegt að sjá fyrrverandi sveitarstjórnarmenn fara fram á að þessi dagur sveitarstjórnarkosninga snúist um ESB.

Við sjáum slaginn hér í þinginu. Hvernig haldið þið að það sé þá á þeim degi? Þetta er bara hroki og ekkert annað. Hingað koma sömu menn og segja: Af hverju spyrjum við ekki þjóðina? Eigum við ekki að spyrja þjóðina?

Sömu menn vildu ekki spyrja þjóðina hvort við ættum að hefja þessa vegferð. (VigH: Rétt.) Af hverju vorum við ekki spurð úti í þjóðfélaginu þá hvort við ættum að hefja þessa vegferð, fara í þessar viðræður hvort sem menn kalla það samningaviðræður eða aðlögunarviðræður?

Þess vegna segi ég: Nei, leyfum sveitarstjórnarstiginu að eiga þennan dag (Forseti hringir.) og leyfum kosningunum að snúast um sveitarstjórnarmál en ekki ESB. (Gripið fram í.)