143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:40]
Horfa

Geir Jón Þórisson (S):

Herra forseti. Sá stutti tími sem ég hef verið hér á Alþingi hefur verið mér afar viðburðaríkur. Ég hélt ekki að ég mundi lifa það að sitja hér á Alþingi Íslendinga og verða vitni að kröftugum mótmælum utan dyra ekki ósvipað og ég kynntist utan dyra 2009 en lengi skal manninn reyna. Ég er hreinlega farinn að trúa því að öll þessi atburðarás bæði hér innan dyra og utan dyra eigi eitthvað skylt við veru mína hér á hinu háa Alþingi.

Ég kom fullur tilhlökkunar til þingstarfa og vænti þess að fá tækifæri til að fjalla um hin ýmsu brýnu mál sem hér liggja undir en reyndin hefur orðið nokkur önnur. Þar sem ég hverf fljótlega af þingi vil ég nota tækifærið og hvetja þingmenn til að eiga uppbyggilegar og árangursríkar samræður þjóð vorri til heilla. Sameinuð stöndum við en sundruð föllum við.

Það hefur hvílt á mér lengi að fá tækifæri til að vekja máls á því þjóðarmeini að hér skuli allt of stór hópur fólks búa við fátækt. Á því þarf að taka og það strax því að ein ríkasta þjóð veraldar getur ekki látið líðast að stór hópur Íslendinga búi við fátæktarmörk.

Lokaorð mín, af fullri vinsemd og virðingu, er gullna reglan: Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.