143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir dyrum stendur að halda áfram umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um Evrópumál. Forseti hefur sjálfur sagt, og ég met það við hann, að skýrslan eigi að ganga til utanríkismálanefndar en við höfum ekki getað kreist það út úr formanni utanríkismálanefndar hvað gert verði við hana þar. Það skiptir máli til þess að menn standi undir því fyrirheiti sem hæstv. utanríkisráðherra gaf í framsöguræðu sinni, að skýrslan yrði forsenda efnislegrar umræðu um Evrópumál.

Hvernig verður vinnunni háttað í utanríkismálanefnd? Er hægt að fá tryggingu fyrir því að það verði efnisleg umræða í næstu viku í nefndinni um málið, að það verði kallaðir þangað gestir, að nefndin fjalli um málið og að nefndin skili áliti sem komi hingað inn áður en við tökum þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra til efnislegrar umræðu? Það eru yfir 30 þúsund manns nú þegar, á örfáum dögum, búnir að skrifa undir áskorun til þingsins um að samþykkja ekki tillögur hæstv. utanríkisráðherra. Það er ljóst að sú afstaða ríkisstjórnarinnar að gefa ekkert fyrir viðhorf aðila vinnumarkaðarins á engan (Forseti hringir.) hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Er ekki mögulegt að koma vitinu fyrir stjórnarmeirihlutann og reyna að tryggja að við getum unnið af einhverjum brag með þetta mál?