143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti Ég vil þakka hv. þingmanni nálgun hans í þessu máli hvað varðar aðkomu þjóðarinnar. Mig langar að spyrja og kannski líka velta aðeins vöngum yfir því að nú erum við vonandi að stíga inn í framtíð þar sem við eigum í auknum mæli samstarf við þjóðina við ákvarðanatöku, þ.e. fulltrúasamkundan, þannig að við köllum eftir viðhorfum þjóðarinnar til ólíkra mála. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að það þróist á næstu árum og hvernig getum við gert það að venju? Það er ekki nóg að mínu mati að við séum með ákvæði í stjórnarskrá um að 10% þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur er spurning hvort löggjafarsamkundan setji sér viðmið um það hvenær og í hvaða málum hún, hvað eigum við að segja, setji mál á sjálfstýringu og beri þau undir þjóðina. Þetta þarf að verða meira og eðlilegra samtal og samstarf löggjafarsamkundunnar við þjóðina hvað varðar öll stærri mál.

Ég hef sagt um þetta mál að mér finnst það allt of stórt fyrir Alþingi, það hefur sýnt sig í gegnum tíðina. Hins vegar finnst mér það af akkúrat réttri stærðargráðu til að spyrja þjóðina og fyrir hana til að úrskurða í því. Mér þætti vænt um að fá að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa, hvernig við hér getum sett okkur einhvers konar viðmið sem við setjum í lög um þetta einstaka atriði.

Ég heyrði á samtali hv. þingmanns við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að hann teldi að umræðan færi sjálf af stað, en við hljótum að þurfa að skila af okkur einhverjum lágmarksupplýsingum, a.m.k. ef þetta fer að verða viðtekin venja. Ég vil því líka spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að sú upplýsingaveita fari fram.