143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var nú þannig hér fyrr í vetur að hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir afturköllun náttúruverndarlaga. Þá var nokkuð áberandi í þingsal að menn voru með ýmsar getgátur um ástæðuna fyrir því að hann vildi ganga svo langt og það var vont að við þyrftum að vera með einhverjar vangaveltur hér um það.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, tók málið afar skynsamlegum tökum með sátt og víðsýni að leiðarljósi. Það er ekki öllum gefið hér í þinginu að gera það og leiða saman ólík sjónarmið en það er nokkuð sem hv. þingmaður réði vel við að gera og er til algerrar fyrirmyndar. Þess vegna upplifi ég að sumu leyti nú að við séum komin á sama stað í þessu máli, að hér kemur hver þingmaðurinn á fætur öðrum og er með einhverjar getgátur og vangaveltur um það hvað valdi þessum flýti. Margir sögðu hér á föstudaginn í síðustu viku: Hvað gerðist? Það var eins og komið hefði loftsteinn eða eitthvað. (Forseti hringir.) Allt í einu þurfti að gera þetta örfáum mínútum fyrir sjö á föstudagskvöldi. Hvað gerðist? Getur einhver útskýrt það fyrir okkur? (Forseti hringir.) Er það ekki bara betra fyrir umræðuna að hæstv. utanríkisráðherra láti svo lítið að upplýsa okkur um það?