143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherrar sem hér um ræðir, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra, hafa ekki verið hér til að ræða þetta mál. Þeir hafa ekki verið hér til að svara spurningum. Ég veit heldur hreinlega ekki hvað ég á að segja um ummæli eins og „so what?“ yfir því að hér séu svikin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er þjóðinni hjartans mál. Menn gera það ekki að gamni sínu að koma hér í þúsundatali dag eftir dag og mótmæla fyrir utan Alþingi. Það er ekki auðvelt að safna 33.433 undirskriftum, 13,8% kjörbærra manna, en það var talan seinast þegar ég athugaði hana hér fyrr í dag. Þetta er ekkert smámál. „So what?“ Allt, segi ég; „so everything“, „so allt“, virðulegi forseti. [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (KLM): Forseti fagnar því að menn túlki sín orð sín yfir á okkar ylhýra móðurmál.)