143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[22:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu hvernig menn skilgreina loforð og það hefur aðeins vafist fyrir mér. Ef einhver hefur sagt einhvern tíma í útvarpsþætti eða sjónvarpsþætti að hann teldi rétt að gera þetta eða teldi hugsanlega rétt að fara í hitt eða líklegt og er kannski þeirrar skoðunar að það ætti að gera verður það ári seinna eða einu og hálfi ári seinna að ægilegu loforði, skuldbindandi loforði. (Gripið fram í: Í stefnuskrá kannski. ) Stefnuskráin sagði þetta ekki. Menn ættu að fara varlega í þessari orðræðu (Gripið fram í: Varlega í að lofa?) Nei, varlega í þessari orðræðu. Auðvitað höfðu allir sagt eitthvað, verið einhverrar skoðunar og talið eitthvað rétt á einhverjum tímapunkti og svo að betur athuguðu máli breytum við um skoðun eða teljum það ekki rétt lengur. Það er ekkert nýtt í þessu og þetta er eilíft vandamál í pólitískri umræðu, alltaf þetta: Þetta er loforð. Þetta er auðvitað ekki loforð.