143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[23:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég er ekki ósammála því og ég er alls ekki að segja með þessu að ég telji allt vont innan Evrópusambandsins, að ég sjái ekki hvítan blett á Evrópusambandinu, það er af og frá. Að sjálfsögðu er margt þar gott að finna þótt ég hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir áratuga umræðu um þetta mál að ég telji um of þrengt að lýðræðinu með inngöngu í Evrópusambandið, að lýðræðinu, sem við ræðum svo mikið þessa dagana. Ég tel Evrópusambandið vera of miðstýrt og of ólýðræðislegt. Ég tel það líka vera of markaðssinnað fyrir minn smekk.

Síðan er það hitt með hinar lýðræðislegu kosningar, hvort sem er í Írlandi eða annars staðar, að það vill gerast í Evrópusambandinu eins og gerist á sumum afherbergjum í húsum að það er bara sturtað niður þangað til vatnið er orðið hreint, (Forseti hringir.) aftur og aftur.