143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir, eins og við sögðum, að við erum með mál sem á eftir að ræða í alla nótt. Ég ætla að gera það að tillögu minni við hæstv. forseta að við tökum nú út mál 2, 3 og 4 og hefjum umræður um gjaldskrárlækkanir. Það er þó eitthvað sem gerir gagn, það mun lækka um 1% á tveimur tekjuliðum, það er góð byrjun á því sem lofað var um að lækka gjaldskrár hjá ríkinu þótt það sé ekki nema lítið brot af loforðunum. Þá gerðum við eitthvert gagn í nótt. Það hlýtur að vera hægt að fá hingað staðgengil hæstv. fjármálaráðherra og þá getum við tekið þessi mál. Síðan getum við tekið fiskeldi, greiðsludrátt í verslunarviðskiptum — að vísu eru þetta EES-reglur sem færa okkur lengra inn í ESB — fríverslunarsamninga, loftslagsmál og verðbréfaviðskipti. Við gætum sjálfsagt klárað það á næstu sex tímum. Ég skora á hæstv. forseta að taka út í leiðinni mál nr. 2, 3 og 4, fresta þeim og kalla svo aðra þingmenn hingað inn svo að við getum notað nóttina almennilega (Forseti hringir.) þegar við erum hvort sem er búin að eyðileggja hana.