143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[02:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í mínum huga var það ekki bara svo að við værum tilbúin til að sækja um. Ég fyrir mína parta taldi það mikilvægt, ég taldi að það væri komið að því að þjóðin fengi að taka afstöðu til þessarar spurningar, vegna þess að hún fer ekki neitt. Og þrátt fyrir tillöguna frá hæstv. utanríkisráðherra núna fer málið ekkert frá okkur. Það þýðir bara að það kemur til okkar aftur í einhverri óskilgreindri framtíð.

Það er afar mikilvægt, finnst mér, að við áttum okkur á þessu. Þetta er bara veruleikinn. Ísland er í Evrópu og þessi spurning er aðkallandi. Það eru ákveðin vandkvæði í kringum efnahagsstjórnina og ákveðnar sterkar spurningar, það eru valkostir sem eru á borðinu o.s.frv. Spurningin er einfaldlega þannig að hún liggur í loftinu, og við verðum sem ábyrgt stjórnmálafólk að horfast í augu við það að enginn getur í raun og veru leitt málið til lykta annar en þjóðin sjálf.

Það hefur oft verið horft á þetta mál þannig að þetta hafi verið einhverjum vandkvæðum bundið. (Forseti hringir.) Í mínu tilviki var það ekki vandkvæðum bundið vegna þess að ég taldi mikilvægt að sækja um aðild að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu til þess að þjóðin fengi að koma að borðinu.