143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[02:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umræðan um Evrópusambandið er full af klisjum, full af alls konar tali um bjölluat og pakka og svoleiðis dót. Það er ekki djúp umræða og það að tala sig rauðan í framan um muninn á aðlögun og viðræðum skiptir engu máli, það er umræða sem leiðir okkur ekki neitt.

Það er annars vegar veruleikinn og hins vegar er hinn pólitíski veruleiki. Hinn pólitíski veruleiki segir okkur að þjóðin vill vita hvað er í samningnum, það er bara þannig. Svo geta einstakir þingmenn hrist sig og hryllt sig og sagt: Það þarf ekki, vegna þess að það liggur fyrir hvað er í pakkanum, þetta er bjölluat. Þeir geta sagt eitthvað svona og bara fínt fyrir þá að gera það. En pólitíski veruleikinn og samfélagsveruleikinn er sá að þjóðin telur sig eiga rétt á því að vita í hverju þetta felst. Og það er okkar skylda að tryggja að sá réttur sé uppfylltur.