143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[02:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hélt hér góða ræðu og sagði svo fallega í ræðu sinni að þetta umsóknarferli væri lýðræðisverkefni. Það er að mörgu leyti erfitt á Íslandi að fara út í lýðræðisverkefni sem þetta, enda einkennist íslensk umræðuhefð ekki af því að skiptast á skoðunum heldur að eiga síðasta orðið.

Hún lýsti líka þeirri afstöðu að hún væri ekki hlynnt aðild á meðan ég hef lýst þeirri afstöðu að vera hlynnt aðild. Auðvitað geri ég ráð fyrir að við báðar séum að einhverju leyti opnar fyrir því að endurskoða hug okkar og svo vitum við að fjöldi fólks hefur ekki myndað sér skoðun en vill fá tækifæri til þess.

Það virðast vera staðföst áform núverandi ríkisstjórnar að gefa ekki tækifæri á slíku og ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn átti sig á af hverju ríkisstjórnin vill ekki taka þátt í þessu lýðræðisverkefni með kjósendum.