143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[03:05]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ein af fallegri sögum frá Ólympíuleikunum er af John Stephen Akhwari sem var hlaupari fyrir Tansaníu 1968. Hann hljóp maraþon — ég ætla að reyna að koma þessari sögu fyrir á þessum stutta tíma — en féll við, slasaði sig á hné og öxl og kláraði hlaupið langt á eftir öllum. Hann var spurður þegar hann kom í mark og fáir voru eftir í áhorfendastúkunni: Af hverju hættirðu ekki að hlaupa? Svar hans er goðsagnakennt í huga þeirra sem hafa fylgst með Ólympíuleikunum: Landið mitt sendi mig ekki til þess að hefja þetta hlaup, það sendi mig til þess að ljúka því.

Ég sé fyrir mér nákvæmlega sömu senu og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir lýsti hér áðan með hæstv. ráðherra Bjarna Benediktsson þegar hann verður sendur út til Brussel til að semja fyrir hönd þjóðar sinnar, að hann muni þá segja við viðsemjendur sína: Þjóðin mín sendi mig hingað til þess að semja fyrir sig, ég er bara ekki sammála henni. — Er það ekki einhvern veginn svona, hv. þingmaður?