143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki af hverju þarf að hefja umræðu um þetta mál núna og mér finnst það satt að segja mjög óeðlilegt.

Nú eru sumir þingmenn stjórnarflokkanna auðvitað á bullandi herferð í afneitun, en margir þeirra hafa gefið ádrátt um breytingar á málinu. Meira að segja hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að hann vilji taka tillit til krafna sem komið hafa fram í samfélaginu. Ýmsir stjórnarþingmenn hafa sagt að eðlilegt sé að taka mið af þessu. Við höfum ekki fengið að heyra frá formönnum stjórnarflokkanna hvort þeir hafi hug á því að gera einhverjar slíkar breytingar eða ekki. Á meðan er málið ekki tækt til frekari umræðu.

Hver er sá ógæfusami þingmaður sem er efstur á mælendaskránni núna? Hvaða þingmanni verður boðið upp á það að flytja ræðu um mál sem enginn veit um hvað snýst? Hver er þessi þingmaður og hver er næstur á eftir? Sætta þingmenn sig við þetta? Þetta er auðvitað ekki hægt, þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Þessir ágætu forustumenn stjórnarflokkanna eru búnir að gefa ádrátt um breytingar á málinu. Þar til við vitum hvort eitthvað er að marka þá í þetta skiptið, því að ekki hefur verið að marka þá hingað til, er ekki hægt að halda umræðu áfram.