143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það má segja að vitleysan ríði ekki við einteyming þar sem hæstv. utanríkisráðherra fer, einkum þegar kemur að Evrópumálunum. Við höfum undanfarið fengið að fylgjast með einhverri furðulegustu atburðarás sem ég hef á liðlega tíu ára ferli í þinginu orðið vitni að þar sem utanríkisráðherra byrjar á að leggja fram skýrslu til umræðu í þinginu en áður en umræðu um hana er lokið eða leitað hefur verið umsagna eða álits nokkurs aðila leggur hann fram tillögu um að slíta viðræðunum án þess að nokkur niðurstaða sé fengin í umfjöllun um úttektina á viðræðum.

Nú bætir hæstv. ráðherra um betur og kemur í dag vonum seinna með Evrópustefnu, þ.e. fyrst er skýrslan, hún ekki rædd til fulls, þá tillaga um slit og loks stefna í málinu. Og það verður að segja að hvert og eitt þessara atriða ber sömu merki og röðin sem þetta ber að og málatilbúnaðurinn allur, það er illa ígrundað, viðvaningslegt og ber vott um takmarkaðan skilning á þeirri stöðu sem Ísland er í á þeim tímum sem við lifum nú.

Tillagan um stefnu sem kynnt var í dag er ágætt dæmi um þetta. Þar leggur hæstv. utanríkisráðherra til að við eigum að byggja á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningnum, og sækja rétt okkar og stöðu á grundvelli þess samnings og reyna að hafa sem mest áhrif þar á. Í fyrsta lagi er öll sú orðræða í miklu ósamræmi við niðurstöður Norðmanna um þau áhrif sem unnt er að hafa á stöðu ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, en hið augljósa í því að reyna að byggja á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er það vandamál sem er að vísu kunnuglegt fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands nú orðið en samt sem áður í öllum samskiptum fólks, fyrirtækja og þjóða talsvert vandamál, þ.e. að við erum ekki að uppfylla samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem hæstv. utanríkisráðherra ætlar að byggja á.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur sennilega verið að kynna stefnu í dag um það að við eigum að byggja á samningi sem við erum brotleg við á hverjum einasta degi. Við uppfyllum ekki grundvallarkröfur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þar eru mikilvægustu stoðirnar um frjálst flæði, m.a. frjálst flæði fjármagns milli landa. Þann þátt samningsins uppfyllum við einfaldlega ekki vegna þess að við höfum neyðst til þess í vandræðum okkar að setja hér lög um gjaldeyrishöft. Við eigum stöðu okkar innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið algerlega undir viðsemjanda okkar vegna þess að við erum brotleg við samninginn og aðeins vegna þess að það er litið fram hjá því um sinn að sá er veruleikinn höldum við enn þeim réttindum sem samningurinn felur í sér. Það að ætla að byggja hagsmuni Íslands á samningi sem við uppfyllum ekki, höfum ekki uppfyllt í rúmlega fimm ár og höfum engar trúverðugar áætlanir um að geta efnt í fyrirsjáanlegri framtíð er þess vegna býsna kindarleg stefna svo ekki sé meira sagt, fyrir utan hversu lítil sýn það er um stöðu Íslands til framtíðar að ætla að láta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið taka æ meiri völd af Íslandi, fullveldi okkar og sjálfstæði.

Forsætisráðherra Breta, David Cameron, var spurður eitt sinn hvort til greina kæmi fyrir Bretland að hætta að vera aðili að Evrópusambandinu og verða þess í stað aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Forsætisráðherra Breta svaraði því ákaflega skýrt: Það kemur ekki til greina að Bretlandi verði stjórnað með faxtæki frá Brussel. Með því orðalagi er vísað til þess að við höfum sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu innleitt hér árum saman löggjöf sem einmitt er send með faxtæki frá Brussel, er í sjálfu sér bara afgreidd hér og stimpluð af þingmönnum á Alþingi og verður þannig að lögum hér. Að ætla að halda áfram að byggja á þeim ófullkomna samningi felur í sér enn meira framsal á fullveldi Íslands á komandi árum vegna þess að á Evrópska efnahagssvæðinu er hafin sú þróun að ekki bara löggjöfin liggur í Brussel heldur er nú í vaxandi mæli eftirlitið og framkvæmdarvaldið með eftirlitinu að flytjast til Brussel. Þar eru að verða til sameiginlegar eftirlitsstofnanir og valdheimildir til að loka atvinnufyrirtækjum, til að sekta atvinnufyrirtæki, til að hafa gríðarleg áhrif á einstakar atvinnugreinar — frá Brussel. Sá sem á enga aðild að Evrópusambandinu og fær bara bæði lögin með faxi frá Brussel og síðan í vaxandi mæli eftirlitið og framkvæmdarvaldið þaðan líka endar í þeirri stöðu að hann hefur ekki lengur neitt að segja um grundvallarþætti í sínu eigin ríki. Hann hefur þá ekki bara framselt löggjafarvald um heilu og hálfu þættina í okkar samfélagi, Íslandi, til erlendra ríkja án þess að hafa neitt um það að segja annað en bara að stimpla það í þinginu heldur hefur hann líka látið erlend ríki annast um eftirlitið án þess að íslenskar eftirlitsstofnanir hafi þar neitt að segja og án þess að Alþingi geti nokkurt eftirlit haft með þeim eftirlitsstofnunum, vegna þess að Alþingi er ekki hluti af þessu skipulagi, og þannig komist í þá stöðu að til að mynda flugstarfsemin hér í landinu sem er gríðarlega öflug atvinnugrein á Íslandi sé sett undir erlenda aðila þar sem við eigum enga aðkomu, þar sem stóriðjan er undirsett margvíslegum þáttum í umhverfislöggjöfinni og eftirliti sem við eigum enga aðild að, að í sameiginlegu evrópsku fjármálaeftirliti verði fólgnar valdheimildir til að loka íslenskum bönkum án þess að Alþingi eða íslenskir eftirlitsaðilar hafi þar nokkra aðkomu. Það hefur verið býsna merkilegur eftirleikur efnahagshruns að hafa ekki einu sinni átt neina aðild að þeim eftirlitsstofnunum sem áttu að koma í veg fyrir það.

Nei, þetta er býsna snautleg framtíðarsýn hjá hæstv. utanríkisráðherra en hins vegar er ekki hægt að undirstrika nægilega hversu brýnt það er að við brjótumst út úr þeirri erfiðu og þröngu stöðu sem við erum í, að vera brotleg við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, helsta viðskiptasamning okkar, þann samning sem tryggir sjávarútveginum okkar aðgang að sínum helstu mörkuðum á bestu mögulegu kjörum og út úr þeirri stöðu að vera ekki efnahagslega sjálfstæð heldur hafa orðið að setja lög sem banna fólki að fara með peningana sína úr landinu. Þetta er svo gríðarlega mikilvægt verkefni. Við finnum að sönnu ekki mikið fyrir þessum gjaldeyrishöftum í daglega lífinu okkar á Íslandi vegna þess að við fáum gjaldeyri til að fara í sumarfrí erlendis og til að kaupa gjafir handa einhverjum ættingjum okkar í útlöndum og annað sem við þurfum til daglegs lífs en þessi gjaldeyrishöft kosta okkur 80 milljarða eða hátt í 1 millj. kr. á hvert heimili í landinu samkvæmt þeim tölum sem Viðskiptaráð kynnti í dag. Þessir 80 milljarðar eru teknir beint af lífskjörum okkar og þessi kostnaður heldur áfram dag frá degi, dregur þar með úr lífskjörum hér og gerir þau samsvarandi verri en þau eru í nágrannalöndunum og atvinnulíf okkar verr fært um samkeppni við atvinnulíf í öðrum löndum.

Við erum mjög skuldug erlendis. Við eigum fram undan stóra endurfjármögnun á skuldbindingum okkar og það er ekkert eins mikilvægt fyrir okkur og að rækta samstarf við aðrar þjóðir og hafa trúverðuga áætlun um framtíð þessa lands, m.a. efnahagslega. Þess vegna er enga (Forseti hringir.) verri tillögu hægt að flytja á þessum tímapunkti í sögu íslenska lýðveldisins en að slíta aðildarviðræðum við (Forseti hringir.) önnur ríki Evrópu og helstu viðskiptalönd okkar.