143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Samfylkingin hefur verið sá flokkur sem hefur haft hvað skýrasta afstöðu að því er varðar spurninguna um aðild að Evrópusambandinu. Björt framtíð hefur líka talað býsna skýrt og nánast einum rómi hvað varðar þá spurningu.

Það sem ég hef kannski svolítið saknað í rökræðunni um það mál er svar eða vangaveltur um hvert er plan Samfylkingarinnar að baki þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hafnar aðild, ef það yrði niðurstaðan, eða þá að við fyndum engan flöt á frambærilegum samningi og við mundum einfaldlega snúa baki við aðildarviðræðum að því gefnu. Hvað telur þingmaðurinn og stjórnmálahreyfing hans að sé (Forseti hringir.) eðlileg sýn? Er þá kannski bara engin sýn fyrir Ísland? (Forseti hringir.) Ég mundi fagna því ef hv. þingmaður gæti varpað ljósi á þær vangaveltur.