143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:14]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Ég hef að sjálfsögðu áhuga á að sjá hver þróun Evrópusambandsins verður. Ég held að við höfum fullt tækifæri til þess án þess að gerast aðili að sambandinu.

Hv. þingmaður spurði einnig hvort ég mundi ekki vilja sjá hvernig samningi væri hægt að ná í köflum um sjávarútveg og landbúnað. Satt að segja hef ég ekki sérstakan áhuga á því, vegna þess að ég hef ekki áhuga á aðild og tel ekki hagsmunum Íslands betur borgið innan Evrópusambandsins, hvernig sem þeir kaflar mundu líta út, en kannski af öðrum ástæðum sem snúa að miklu almennari atriðum, lýðræðislegum. Ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um lýðræði og áhrif fólks á þau lög sem eru sett í landinu. Ég hef áhyggjur af því að það væri miklu erfiðara að mótmæla fyrir utan þinghúsið í Brussel en fyrir utan þinghúsið hér á Austurvelli. Áhrifin sem Íslendingar hefðu á örlög sín innan svona stórs sambandsríkis yrðu afskaplega lítil. Það er eiginlega þannig. Auk þess hvað hagsmunir okkar og aðstæður eru ólíkar aðstæðum í Evrópusambandinu. Þetta er svona grundvallaratriðin.

Ég held að ef við værum í Lúxemborg eða Belgíu hefði ég hugsanlega ekkert á móti því að vera aðili að Evrópusambandinu, enda þótt við hefðum lítil áhrif væru hagsmunir okkar svo svipaðir hagsmunum þeirra að ég gæti treyst þeim til að taka ákvarðanir sem væru okkur í hag öllum stundum.

Hagsmunir okkar eru mjög ólíkir hagsmunum Evrópusambandsins. Við erum með gríðarlega miklar auðlindir. Þá skortir auðlindir, má segja. Við erum úti á jaðri svæðisins og þeir eru í miðjunni. Við erum svakalega lítil þjóð, fámenn, sem gæti nánast engin áhrif haft. Við höfum núna áhrif á þessi stóru mikilvægu mál og fullan aðgang að Evrópska efnahagssvæðinu gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég sé því ekki tilganginn með því að stefna að aðild.