143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Við höfum eins og er mjög lítið og oft ekki neitt að segja um þær reglugerðir sem koma til Íslands vegna Evrópska efnahagssvæðisins. Það er sú staða sem við búum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef við förum ekki í Evrópusambandið mun það haldast þannig. Nýlega vorum við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að díla við EES-reglur sem ég mundi vilja mótmæla, en til hvers? Það er ekki eins og ég hafi neitt um þær að segja. Ef við erum í Evrópusambandinu höfum við alla vega eitthvað að segja. Það er eiginlega búið að segja þetta svo oft að þetta er orðin hálfgerð klisja.

Svo er hitt, eins og hv. þingmaður nefnir réttilega, að íslenskar aðstæður eru sérstakar og því fullt tilefni til þess að ætla að ef Evrópusambandið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu sína, og virðist fara eftir því sem hefur gefið góða raun, alla vega hvað varðar hagnýtingu, (Forseti hringir.) þá finnst mér rosalega skrýtið að hv. (Forseti hringir.) þingmaður (Forseti hringir.) hafi ekki meiri áhuga á því að sjá hvort Ísland geti ekki haft (Forseti hringir.) áhrif á það hvert sú (Forseti hringir.) umræða leiðir. (Forseti hringir.)