143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hér talaði einmitt sá aðili sem þekkir hvað best til þeirrar þingsályktunartillögu sem lögð var fram samhliða því að sótt var um aðild að Evrópusambandinu og stóð að því nefndaráliti sem þar var unnið, ítarlegu nefndaráliti.

Mig langar að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort í framhaldi af því að umsóknin kom fram hafi einhver tímamörk verið nefnd eða hvort krafa hafi komið fram, á þeim tíma sem unnið hefur verið samkvæmt þessari tillögu, um að svör þyrftu að liggja fyrir, t.d. þegar ákveðið var að bíða með frekari umræður í aðdraganda síðustu kosninga.

Nú var það ljóst og kom ágætlega fram í ræðu hv. þingmanns að verulega miklar kröfur voru gerðar, eða forsendur í þingsályktunartillögunni, meðal annars varðandi sjávarútveginn. Kom það einhvers staðar fram í framhaldinu, sem viðbrögð við þeirri þingsályktunartillögu, að Evrópusambandið, eftir að umsókn barst með þessum skilyrðum frá þinginu, teldi útilokað að fara í viðræður vegna þeirra forsendna? Var einhvern tíma sagt að það þýddi ekkert að gera þessar kröfur, það væri ekki hægt að biðja um það sem kom fram í þingsályktunartillögunni, eða reyndi aldrei á það?

Í síðasta lagi, og ég geri ráð fyrir að hægt sé að svara því í tveimur lotum, hefur mikið verið rætt um aðlögunarferli, hvort við séum í aðlögunarferli eða samningum. Nú er þetta kannski orðhengilsháttur en mig langar að spyrja hv. þingmann út í það af því að ég hef sem fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn hvergi séð aðgerðir um aðlögun vegna aðildarumsóknar í neinu ráðuneyti á umræddu tímabili. Ég bið hv. þingmann að benda mér á ef einhver dæmi eru um slíkt og þá dæmi um aðlögun sem ekki er krafa frá EES eða sjálfstæð ákvörðun ráðuneytis vegna skynsamlegra breytinga. Það var nefnilega sett inn í (Forseti hringir.) samningsferlið að aðlögun þyrfti ekki að hefjast nema ákvörðun væri tekin um það að ganga inn í sambandið.