143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:30]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu utanríkisráðherra um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar og fræðandi umræður í dag. Mér finnst umræðan hafa verið málefnaleg og góð, jafn góð og mér þykir tillagan vera vond. Tillagan sem liggur fyrir þykir mér eiginlega arfaslök og eru þrjár sérstakar ástæður fyrir því að mér þykir hún alveg sérstaklega slæm.

Í fyrsta lagi finnst mér mjög slæmt að hér er verið að loka á þetta stóra og mikilvæga mál fyrir framtíð lands og þjóðar með getgátum í raun og veru, með þeim rökum að hlutirnir séu einhvern veginn og byggt á m.a. einni skýrslu sem er ekki einu sinni fullrædd eða hefur ekki fengið fulla þinglega meðferð. Það þykir mér vera dálítið undarleg vinnubrögð, það er dálítið eins og að ákveða hvað sé undir jólatrénu áður en maður tekur pappírinn utan af gjöfunum.

Í öðru lagi þykir mér mjög sorglegt að sjá mikla vinnu fara í súginn því hvað sem mönnum finnst um þá tilhugsun að Ísland gangi í Evrópusambandið á endanum eða ekki er alveg ljóst að mikil og góð vinna hefur farið fram á vegum samninganefndanna, á vegum ráðuneytanna, vinna sem ég held að stjórnkerfið íslenska hafi lært mjög mikið af og ég er viss um að við munum nýta okkur hvort sem við göngum inn eða ekki. Með þessari tillögu er gengið skrefi lengra en þegar viðræðurnar voru frystar fyrir kosningar með því að slíta þeim formlega þannig að þessi vinna fer öll í súginn. Ef svo vildi til að menn vildu byrja aftur þyrfti að byrja upp á nýtt. Það þykir mér ekki góð vinnubrögð.

Síðan þykir mér afskaplega sorglegt að með þessari tillögu er gert ráð fyrir því að þingið taki ákvörðun um að neita þjóðinni um aðkomu að þessu máli yfir höfuð. Það hefur alltaf legið fyrir frá því að umsóknin var upphaflega send inn að samningur yrði lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæði. Fyrir kosningar voru margir flokkar, þeirra á meðal stjórnarflokkarnir, sem lögðu til að áframhald viðræðnanna yrði lagt fyrir þjóðaratkvæði en nú er gert ráð fyrir því að ákvörðun verði tekin án þess að þjóðin fái nokkra aðkomu. Það þykir mér ekki vinnubrögð til fyrirmyndar.

Það er ekki oft en það kemur fyrir og þetta er eitt af þeim tilfellum í þinginu þegar maður sýtir það að fá ekki að halda þriggja tíma ræðu vegna þess að þetta mál er svo stórt að engin leið er að gera því skil á örfáum mínútum. En mig langaði rétt í þessari fyrri ræðu minni að velta fyrir mér hvers lags fyrirbæri þetta Evrópusamband er sem um ræðir vegna þess að í umræðunni í þjóðfélaginu og mér finnst jafnvel örla á því hér í þinginu er eins og Evrópusambandið sé frekar illa skilgreint apparat, jafnvel einhvers konar ógnarfyrirbæri. Stundum í umræðunni líður mér eins og ég sé dottinn inn í bókmenntaheiminn og rifjast upp fyrir mér ágætar bækur og reyndar sjónvarpsþættir sem voru gerðir á sjöunda áratugnum sem hétu The man from U.N.C.L.E. eða Maðurinn frá frænda. Frændi sem þar um ræddi var skammstöfun fyrir, í íslenskri þýðingu, framkvæmdastjórn ráðgefandi gegn æsingum, njósnum, drápum og ýmsu fleira. Það apparat var spæjarasamkunda sem barðist við mjög vont afl sem var í raun og veru ekki skilgreint fyrir neitt nema illsku.

Stundum mætti halda að Evrópusambandið væri einhvers konar framkvæmdastjórn í Brussel sem hefði sjálfstæðan vilja og jafnvel sjálfstæðan illvilja. En ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður í ræðustól og hefur komið fram líka í ræðum annarra hv. þingmanna að Evrópusambandið er auðvitað samvinnuvettvangur. Það er í raun og veru stærsta samvinnuhreyfing í heimi og jafnvel í sögunni, samvinnuapparat sjálfstæðra þjóða þar sem þjóðirnar í Evrópu hafa tekið sig saman um að vinna saman að friði og að því að samþætta efnahag sinn og samþætta utanumhald utan um efnahagslíf, umhverfismál og fleira.

Í svona stóru samningaapparati eins og Evrópusambandið er byggist upp stjórnkerfi utan um samningana. Í Brussel starfa — það fer eftir því hvaða stofnanir eru taldar til og hver er að telja — um 30–50 þús. manns í Evrópusambandinu, ef svo má að orði komast. Sá sem hér stendur er mikill áhugamaður um einföld reikningsdæmi og ég lék mér einhvern tíma að því að reikna út hvað væru margir íbúar Evrópusambandslandanna á bak við þessa starfsmenn alla enda hljóma þessar tölur, 30 þús. starfsmenn eða 50 þús. starfsmenn ógnarháar í íslensku samhengi. Hvað væru margir íbúar Evrópusvæðisins á bak við? Mér taldist svo til að miðað við þann fjölda væri það svipað því og það væru um það bil 60 íslenskir embættismenn í Evrópusambandsverkefninu. Það er ekki svo órafjarri þeim fjölda sem nú þegar starfar á vegum Íslands í Brussel, í sendiráði, í EFTA, í NATO o.s.frv.

Evrópusambandið er samvinnuvettvangur og eftir því sem sá vettvangur hefur orðið dýpri hefur Evrópusambandið þróast út í meira beint lýðræði, þ.e. sitt eigið lýðræði. Framkvæmdastjórnin er auðvitað samansett af framkvæmdastjórum og þeim er ekki útungað í Brussel. Þeir eru tilnefndir af Evrópusambandsþjóðunum, það eru þjóðirnar sjálfar eða ríkisstjórnir viðkomandi landa sem útnefna þessa kommissara eins og við kölluðum þá. Síðan hefur vægi Evrópuþingsins aukist mjög mikið, sérstaklega með Lissabonsáttmálanum, þannig að Evrópuþingið er ekki lengur eingöngu ráðgefandi heldur er það skýr hluti af allri ákvarðanatöku í Brussel.

Evrópuþingið er kosið af íbúum í löndunum og kerfið þar er að mörgu leyti mjög athyglisvert. Þar ríkir ekki fullkomið jafnvægi atkvæða heldur njóta minni ríki þess í raun og veru að þau hafa talsvert fleiri þingmenn en stærð þeirra telur og auk þess gilda um ákvarðanatöku þingsins ákveðnar reglur. Til að mál fái þar samþykki þarf vitaskuld meiri hluta, það þarf sömuleiðis að vera ákveðinn lágmarksfjöldi ríkja á bak við þann meiri hluta og sá meiri hluti þarf einnig að túlka vilja ákveðins hlutfalls, sem mig minnir að sé um 65% af öllum íbúafjölda álfunnar. Það segir sig því nokkuð sjálft að ákvarðanir innan Evrópusambandsins verða ekki teknar út frá þröngum hagsmunum örfárra stórra ríkja eða margra pínulítilla ríkja. Það er gætt ákveðins jafnræðis. Mér finnst þetta mikilvægur punktur í umræðuna vegna þess að við upplifum það á Íslandi, verandi hluti af EES og Evrópska efnahagssvæðinu í gegnum EFTA, að við höfum þar vissulega aðkomu að upplýsingum en ekki beina aðkomu að ákvörðunum. Mér þykir mjög mikilvægt að halda því til haga að í raun og veru muni Evrópusambandsaðild vera miklu lýðræðislegra form fyrir okkur á Íslandi.

Mig langaði í ræðunni til að fara inn á það hvernig Evrópusambandið virkar, hvernig reglur eru og lausnir fyrir sérstakar tegundir af svæðum o.s.frv., en ég sé að tími minn er á þrotum. Sorg mín er mikil yfir því að hér skuli ekki leyfðar þriggja tíma ræður, en ég vonast til að geta komið inn á þessi atriði í seinni ræðu minni.