143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni um hversu trúverðugar slíkar viðræður væru og ég vildi fá svar við því í seinna andsvari.

Varðandi það að sækja um aðild, það var jú bara einn flokkur sem hafði það á stefnuskrá sinni að sækja um og sá flokkur barði í gegn meiri hluta á Alþingi með því að mynda vinstri stjórn, lofa mönnum vinstri stjórn, og í staðinn skyldu menn kyngja því í þeim ágæta flokki, Vinstri grænum, að ganga í Evrópusambandið eða sækja um. (HHj: Gerðu nú ekki lítið úr einum flokki.)

Síðan minni ég á kattasmölunina. Ég minni á ræður, sérstaklega hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur sem er athyglisverð þar sem hún finnur Evrópusambandinu allt til foráttu en segir svo: Já, ég vil sækja um aðild.

Hér var einn flokkur sem kúgaði meiri hluta Alþingis til samstarfs við stefnu sína og hann bítur núna úr nálinni með það og hefur sennilega skaðað hugsanlega aðild að Evrópusambandinu í mjög langan tíma.