143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni, framsóknarmanni úr Kópavogi, hlý orð í minn garð.

Varðandi þinglega meðferð færði ég þau rök að þetta mál væri þvert á gefin loforð í kosningabaráttunni af hálfu hæstv. ráðherra. Ég fór í upphafi míns máls yfir það hvað þau sögðu við kjósendur í sjónvarpinu fyrir kosningar til að lokka þá til að kjósa sig. Svo leggja þau fram mál sem er þvert á þá stefnu sem boðuð var í sjónvarpinu fyrir kosningar og ég sé ekki af hverju við hér í þinginu eigum að taka þátt í því þegar áskoranir berast, ekki bara úr Kópavogi heldur frá 50 þús. kjósendum, um að draga þetta mál til baka.

Fólk lítur á þetta sem svik, hvort sem það er hlynnt inngöngu eða á móti henni eða hefur jafnvel ekki myndað sér skoðun, það vill bara fá að mynda sér skoðun. Því finnst að verið sé að svíkja það um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég stend með áskorunum um að málið verði dregið til baka og fólk setjist niður og finni góðan tíma fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur til dæmis sagt að ætti að fara fram á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Varðandi siðað samfélag og löggilta endurskoðendur í Evrópusambandinu segi ég nú, og er af mikilli ætt löggiltra endurskoðenda, að ég þekki það mál bara ekki nógu vel til að ég treysti mér til að svara fyrir það hér í ræðustól Alþingis.