143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Við höfum aðeins rætt þessi mál hér í þingsal undanfarið og ég veit að við erum sammála um marga hluti. Þó að við séum ekki endilega sammála í grunninn, þ.e. varðandi inngöngu í ESB, held ég að við deilum þeirri skoðun að þjóðin eigi að koma að þessari ákvörðun.

Ég hef upplifað það, eins og ég veit að fleiri þingmenn hafa gert undanfarið, að efasemdarfólk og jafnvel andstæðingar Evrópusambandsins eru orðnir háværari um að fá að koma að málinu og segja sitt álit á því en ekki að það verði slegið út af borðinu án þess að fólk hafi nokkuð um það að segja.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvernig hann hygðist kynna þetta fyrir þjóðinni og fékk í sjálfu sér engin svör við því. Mér finnst það afar athyglisvert að leggja fram skýrslu þar sem fram kemur að kynna eigi málin fyrir þjóðinni en svo liggur það ekki fyrir með hvaða hætti. Ekki er heldur tekið tillit til þeirra mótmæla sem hafa farið fram eða þeirra undirskrifta sem safnast hafa undanfarið.

Hér eru aðrar tillögur undir og þar á meðal tillaga okkar vinstri grænna þar sem við leggjum til ákveðna sáttaleið og hæstv. utanríkisráðherra hefur tekið jákvætt í hana opinberlega. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hann sjái sér fært að taka afstöðu með þeirri tillögu líka.