143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við búum við þau lög að við getum að vísu breytt stjórnarskránni, við gerðum um það samþykkt á síðasta kjörtímabili að hægt væri að breyta henni innan kjörtímabilsins og þar með taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur, annaðhvort með því að þingið, þriðjungur þingmanna eða eitthvað slíkt, geti krafist atkvæðagreiðslu eða tiltekin prósenta af þjóðinni. Þá hefur oft verið talað um 10 eða 15%. Við erum núna komin með undirskriftir yfir 20%. Ég lít þannig á að ef við förum með mál í þjóðaratkvæðagreiðslu eigum við að sjálfsögðu að standa við það að afgreiða málin í samræmi við þá niðurstöðu.

Við þurfum í sjálfu sér ekki að breyta stjórnarskránni áður en þetta verður gert. Það er aðeins fyrirsláttur. Við getum alveg eins fengið niðurstöðuna strax og skuldbundið okkur til að vinna í samræmi við þá niðurstöðu. Mér finnst það skipta mjög miklu máli.

Það er gjarnan þannig að þegar menn eru komnir í þrot eins og núna eru menn byrjaðir að tala um að við skulum eyða löngum tíma í þetta, við skulum skoða aðra möguleika o.s.frv. Menn eru að reyna að drepa málinu á dreif. Við í Samfylkingunni víkjum verulega frá upphaflegri aðferðafræði okkar yfir í málamiðlun um að þarna sé farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er líka þannig að þjóðin hefur bókstaflega krafist þess.

Ég tek undir með hv. þingmanni og þeirri stefnu Pírata að þegar út í það er komið á þjóðin auðvitað að fá tækifæri til að tala. Það er lýðræðislegt og það er eina leiðin sem við getum notað til að komast út úr þessum vanda því að þá skuldbindum við okkur, hvort sem við verðum undir eða ofan á, til að fara eftir niðurstöðunni og tökum þá þetta mál af dagskrá eða setjum það á dagskrá eftir því hver niðurstaðan er.

Mér finnst þetta skipta máli. Þetta er ein af leiðunum út úr ágreiningi eins og við erum að glíma við hér þar sem allir flokkar eru meira og minna klofnir í málinu. Þegar menn lögðu af stað í byrjun var hugmyndin að reyna að koma málinu í þann farveg að þjóðin fengi tækifæri til að vinna með það. Þess vegna voru samningahóparnir líka skipaðir þannig. (Forseti hringir.) Það var ekki verið að setja flokkspólitískan stimpil á umræðuna þá. Það var verið að leita að bestu lausninni fyrir þjóðina. Um það snýst þetta.