143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar og minna á að óskað hefur verið eftir því að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins væru viðstaddir þessa umræðu. Þeir hafa verið fjarstaddir meira og minna alla umræðuna. Forseti ætlaði að gera boð fyrir þá en enginn þeirra hefur birst hér. Ég hlýt því að inna hæstv. forseta eftir því hvort þeir hafi svarað boðum forseta og hver þau svör hafa verið, og ef ekki, að ýta á eftir því að boðin verði ítrekuð. Eins og kom fram eru ýmsir hv. þingmenn sem vilja eiga orðastað við ráðherra Sjálfstæðisflokksins, eða a.m.k. tryggja að þeir fylgist með umræðunni og geti svarað því sem til þeirra er beint ef þeir svo kjósa.

Ég ítreka þá beiðni sem hefur komið fram um að þeim verði gert viðvart um að þeirra sé óskað, a.m.k. einhverra þeirra, við þessa umræðu.