143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur gott svar. Ég held áfram með Spán og talandi um sveigjanlegan vinnumarkað byggja Spánverjar afkomu sína að verulegu leyti á ferðaþjónustu. Það vill þannig til að ferðaþjónustan stendur í dag jafnfætis sjávarútveginum, er jafnvel aðeins farin að taka fram úr miðað við nýjustu tölur. Ég held að við verðum að skoða þetta mjög vel og svo þá staðreynd að næstu ár verðum við með krónuna. Okkur hefur tekist býsna vel með krónuna ef við tökum mið af lífskjörum. Það er óyggjandi að verg landsframleiðsla á hvern mann, ef við tökum meðaltal 15 bestu ESB-landanna, er hærri hér á landi en þar.