143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hægt að gangast við fjölmörgum mistökum á síðasta kjörtímabili, enda vissu allir þegar það hófst árið 2009 að í því mikla hreinsunarstarfi og uppbyggingarstarfi sem þar var fram undan, í því neyðarástandi sem þá var, var það óhjákvæmilegt, þar sem margar og stórar ákvarðanir væru teknar yrðu ýmsar þeirra ekki þær bestu sem völ var á og að eftir á að hyggja hefðum við tekið betri ákvarðanir.

Ég tel hins vegar að aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hafi verið alger forsenda fyrir því uppbyggingarstarfi sem hér varð og ég held ekki að á þeim hafi verið haldið illa. Þvert á móti held ég að unnið hafi verið mjög gott starf í þeim viðræðum. Er þar við ýmislegt að eiga, meðal annars það að sambandið var sjálft að endurskoða sjávarútvegsstefnu sína og síðan kom makríldeilan upp á milli þjóðanna, hún var auðvitað ekki fyrirsjáanleg og ekki á færi stjórnmálamanna að koma í veg fyrir hana.

Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það sem skiptir máli er framtíðin. Það sem skiptir meðal annars máli í framtíðinni er frelsið. Umræðan um gjaldmiðlinn, um lægri fjármagnskostnað og aðra slíka hluti snýst um frelsið vegna þess að það að hafa lítinn eigin gjaldmiðil er viðskiptahindrun í sjálfu sér. Hún dregur úr möguleikum bæði fólks og fyrirtækja að sækja sér fjármagn til að fjármagna heimili sín eða atvinnuuppbyggingu. Þannig dregur hún úr frelsi okkar, fækkar valkostum okkar, og fyrir litla þjóð eins og Íslendinga er það mikilvægasta verkefni framtíðarinnar að auka viðskiptafrelsið. Þannig (Forseti hringir.) tryggjum við best möguleika okkar til að vera sjálfstæð þjóð.