143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

samgöngur við Vestmannaeyjar.

[11:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Erfiðleikar í samgöngumálum Vestmannaeyja hafa ekki farið fram hjá neinum og þó að þingmenn Suðurkjördæmis hafi margir hverjir verið duglegir við að taka þau mál upp hér, til dæmis undir dagskrárliðnum um störf þingsins, þá held ég að það sé allt í lagi að fleiri sýni þessu máli áhuga. Það leysir svo sem lítið að ræða málin hér. Ég hef lítið heyrt frá hæstv. samgönguráðherra eða innanríkisráðherra og mig langar því að eiga orðastað við ráðherra um stöðuna almennt hvað varðar samgöngur til Eyja. Við þekkjum öll vandræðin í sambandi við Landeyjahöfn en þar eru náttúruöflin að verki og fara sínu fram og við fáum takmarkað við það ráðið.

Spurningin er hins vegar hvað stjórnvöld, ráðherra og ríkisstjórn hafa verið að gera og eru að gera til að takast á við þær erfiðu aðstæður. Ég er þá ekki fyrst og fremst að hugsa um tímabundna truflun vegna kjaradeilu, sem ég held að menn ættu að tala varlegar um en sumir hafa gert hér. Nei, ég er að tala um að gera það sem hægt er til að búa sem best við þetta ástand og þangað til varanlegri framtíðarlausnir finnast. Það hlýtur að vera markmiðið.

Steininn tók þó úr þegar fréttir komu af því í gær eða fyrradag að ofan í kaupið stæði til að loka flugvellinum um helgar. Nú skilst mér að vísu að það hafi gengið til baka tímabundið að minnsta kosti, en maður spyr sig: Hvað eru stjórnvöld að hugsa? Veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir þegar hugmynd af því tagi kemur upp og Isavia sendir bréf um það að draga beinlínis úr þjónustu á flugvellinum á sama tíma og vandræðin eru sem mest vegna ástandsins í Landeyjahöfn og út af kjaradeilunni.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður úrbótum í Landeyjahöfn, þar með talið leiðigarði til að beina Markarfljóti meira til austurs, sem mér sýnist vera strand í bili?

Í öðru lagi: Hvað líður undirbúningi að endurnýjun nýs Herjólfs? Verða flugsamgöngur til Vestmannaeyja tryggðar, og þá ekki bara til bráðabirgða heldur á meðan þetta ástand varir og stöðugt um alla framtíð?